Tíðindi

sunnudagurinn 23. desember 2018

Gleðileg jól

HG óskar núverandi og fyrrum starfsfólki sínu, fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Samkvæmt venju hefjast jólin á Hnífsdalsbryggju með skötuveilsu í hádegi síðasta vinnudags fyrir jól. Árið í ár var engin unantekning, vel var mætt á föstudaginn og bragðaðist skatan sem er verkuð af Lionsmönnum á Ísafirði einstaklega vel.

þriðjudagurinn 21. ágúst 2018

Háafell sækir að nýju um regnbogasilungsleyfi

Háafell, dótturfélag Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf, hefur sótt að nýju um starfs- og rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og 200 tonna framleiðslu af þorski á ári í Ísafjarðardjúpi. 

Í júli 2017 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfsleyfi Háafells fyrir sömu framleiðslu úr gildi vegna kæru veiðiréttarhafa. Tekið hefur verið tillit til þeirra annmarka sem úrskurðarnefndin rökstuddi sína ákvörðun með en þeir voru tæknilegs eðlis.

Frá árinu 2011 hefur Háafell stefnt að því að hafa leyfi til þess að ala bæði regnbogasilung og lax í Ísafjarðardjúpi og felst því engin stefnubreyting í umsókninni. Þvert á móti endurspeglar hún skýran vilja til þess að starfrækja áfram umhverfisvænt fiskeldi í Ísafjarðardjúpi líkt og fyrirtækin hafa gert síðan árið 2002.
Mikil þekking hefur skapast hjá starfsmönnum fyrirtækisins á rekstri slysalauss sjókvíaeldis undanfarin 16 ár sem mikilvægt er að missa ekki niður heldur nýta og byggja á til framtíðar og er umsóknin liður í því.

Háafell hefur lagt mikla vinnu í að mæta hagsmunum veiðiréttarhafa í gegnum 7 ára umsóknarferlið, á þann hátt að fiskeldið og nýting veiðivatnanna geti farið saman. Liður í því er útfærsla og tillögur um mótvægisaðgerðir sem byggja á bestu reynslu annarra eldisþjóða.
Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar uppbyggingaráform Háafells  og tillögur að mótvægisaðgerðum við Ísafjarðardjúp er bent á ítarlega matsskýrslu Háafells fyrir laxeldi.

 

 

þriðjudagurinn 12. júní 2018

Viðurkenning fyrir sjófrystar afurðir inn á markaði í Norður Ameríku.

Við brottför frystitogarans Júlíusar Gerimundssonar ÍS 270 eftir sjómannadag veitti High Liner Foods útgerð og áhöfn viðurkenningarskjöld fyrir framleiðslu á sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum. 

Með þessari "sérstöku viðurkenningu fyrir veittan stuðning í framleiðslu fiskafurða í Icelandic vörumerkið" vilja forsvarmenn High Liner Foods þakka fyrir góð og gild viðskipti.

High Liner Foods er leiðandi í framleiðslu og sölu á virðisaukandi frosnum fiskafurðum inn á markaði í Norður Ameríku. Kaupandinn gerir miklar kröfur um gæði og vottanir gagnvart umhverfi og samfélagslegri ábyrgð sem snúa meðal annars að öryggi og velferð starfsmanna. Viðurkenningin er því góð hvatning fyrir útgerð og áhöfn í sínum daglegu störfum fyrir kröfuharðan alþjóðlegan matvælamarkað.

mánudagurinn 11. júní 2018

Veiðiréttarhafar á villuslóð

Landssamband veiðifélaga (LV) hefur krafist rannsóknar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar á umhverfismati Háafells fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í rökstuðningi LV er ýjað að meintri vanrækslu Skipulagsstofnunar í ferlinu og hún sökuð um að láta undan óeðlilegum þrýstingi Ísafjarðarbæjar. Þá krefst LV þess að Háafell vinni nýja frummatsskýrslu þar sem aðilum býðst á ný að senda inn athugasemdir.

Hafa skal það sem sannara reynist.Í maí í fyrra var von á áliti Skipulagsstofnunar vegna laxeldis Háafells í Ísafjarðardjúpi. Það dróst á langinn og hafði ekki verið gefið út um miðjan júlí þegar áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun var skyndilega kynnt til sögunnar. Áhættumatið frá Hafró setti áform Háafells í algjört uppnám en í þeirri útgáfu matsins var ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða gagnvart erfðablöndun.

 

Skipulagsstofnun tilkynnti í fyrrasumar að hún horfði til niðurstaðna áhættumatsins, en fram að þeim tíma höfðu íslensk stjórnvöld skilgreint Ísafjarðardjúp sem fiskeldissvæði og hafði Háafell unnið í góðri trú út frá þeirri staðreynd. En á miðju sumri í fyrra, urðu leikreglur í umsóknarferlinu aðrar. Og það á lokametrum ferlisins. Vegna þessarar óvæntu stöðu varð það úr, að Háafell fengi ráðrúm og tíma til þess að leggja fram frekari gögn um mótvægisaðgerðir, til dæmis vegna mögulegrar erfðablöndunar.

Það kom því verulega á óvart að fá sent álit Skipulagsstofnunar í apríl í vor, án þess að færi hefði gefist á að koma að viðbótargögnum sem þessar breyttu aðstæður vissulega kölluðu á og hafði verið fallist á að Háfell fengi að senda inn. Háafell hafði umsvifalaust samband við stofnunina og benti á að fyrirtækið hefði ekki getað sent inn öll gögn á þessum tíma. Skipulagsstofnun brást hratt við og dró álit sitt til baka svo hafa mætti nýjustu gögn um stöðuna til hliðsjónar þegar að matið yrði birt. Á það hefur verið bent að ekki sé hliðstæða fyrir slíkri afturköllun á áliti en það má jafnframt minna á að ekki er heldur að finna margar hliðstæður við umsóknarferli Háafells, þar sem stjórnvöld breyta leikreglum á lokametrum umsóknarferlisins.

Þær ályktanir sem LV dregur af störfum Skipulagsstofnunar eru því ekki í samhengi við staðreyndir málsins og algjörlega úr lausu lofti gripnar. Þess má geta að Háafell hefur ítrekað boðist til þess að hitta forsvarsmenn LV, bæði fyrr í ferlinu sem og undanfarið til þess að fara yfir stöðu mála og kynna þeim frekar þær lausnir sem geta tryggt farsæla sambúð laxeldis og villtra laxa. Því miður hafa forsvarsmenn LV ekki séð sér fært að hitta forsvarsmenn Háafells en kjósa nú frekar, að því er virðist, að hanna atburðarrás sem er ætlað að grafa undan trausti á fagstofnunum.

Vegna kröfu LV um nýja frummatsskýrslu og athugasemdir þarf eftirfarandi að koma fram. Háafell hefur staðið í umsóknarferli fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2011. Á þeim tíma hafa verið haldnir samráðsfundir bæði með almenningi og öðrum hagsmunaaðilum í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið farið yfir áformin og í mörgum tilvikum hefur eldissvæðum verið hnikað til eða brugðist við með tillögum um þær mótvægisaðgerðir sem best þekkjast erlendis til þess að tryggja sem minnst áhrif af eldinu.
Í öllu ferlinu hafa verið gefnir fjölmargir umsagnarfrestir við áætlanir og skýrslur gerðar þar sem almenningur og hagsmunaaðilar hafa getað komið sínum sjónarmiðum að. Í ofanálag hefur nánast hvert skref Háafells í leyfisferlinu verið kært. Krafa um nýja frummatsskýrslu og umsagnarfrest er því ótrúleg í ljósi þess að fá mál hafa fengið jafn mikla yfirlegu og umfjöllun og áform Háafells um laxeldi í Ísafjarðardjúpi í þau 7 ár sem umsóknarferlið spannar.

 

föstudagurinn 1. júní 2018

Sjómannadagurinn 2018

Eins og undanfarin ár mun Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. bjóða bæjarbúum og gestum  í siglingu á sjómannadaginn á ísfiskskipinu Stefni ÍS 28

Brottför verður kl 10:30 úr Sundahöfn á Ísafirði og verður siglt út í Djúp til móts við skip frá Bolungarvík. Björgunarsveitarfólk frá Ísafirði og Hnífsdal munu sjá um að gæta öryggis um borð á meðan á siglingu stendur.

Yngsta kynslóðin hefur yfirleitt ekki verið svikin af skemmtilegri sjóferð á sjómannadagshelginni og mörg hver hafa í fyrsta skipti á ævinni stigið  á skipsfjöl í sjómannadagssiglinu.

HG óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.