Tíðindi

föstudagurinn 19. júlí 2019

Mynd skilar sér eftir 57 ár

Fyrir skömmu síðan lagði togskipið Ísborg ÍS 250 af stað áleiðis til Belgíu með vélbátinn Heru ÞH í togi, en skipin hafa verið seld til niðurrifs.   Hera var byggð í Flekkefjord í Noregi árið 1962 fyrir Gunnvöru hf. á Ísafirði og bar nafnið Guðrún Jónsdóttir ÍS 267.  Var hún gerð út frá Ísafirði á árunum 1963-1971 á línu, net, síld og botnvörpu undir farsælli stjórn Vignis Jónssonar, Hermanns Skúlasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar Bar skipið mikinn afla að landi á þeim tíma og sem dæmi um það var afli þess árið 1964 alls 5.200 tonn. Skipið þótti stórt og efuðust margir um að raunhæft væri að gera út slíkt skip frá Ísafirði, en reyndin varð sú að skipum af þessari stærð og þaðan af stærri átti eftir að fjölga mikið á næstu árum. 

 

Nú á Gunnvör hf. í smíðum  í Noregi 150 – 170 smál. stálskip, sem bætist við fiskiskipaflotann hér í bænum fyrir eða um næstu áramót. Ber þetta framtak vissulega vott um stórhug og dugnað. (Blaðið Ísfirðingur,  4. apríl 1962, bls. 1)

Guðrún Jónsdóttir ÍS 267 nýkomin til heimahafnar á jólum 1962

 

Guðrún bar nafn móður tveggja eigenda Gunnvarar hf., bræðranna Jóhanns og Þórðar Júlíussona og frá upphafi var mynd af henni um borð í skipinu og fylgdi því  alla tíð.  Nokkru áður en skipið lagði í ferðina til Belgíu færði eigandi þess, Arnar Kristjánsson útgerðarmaður,  Kristjáni syni Jóhanns myndina til varðveiðslu. 

 Arnar Kristjánsson (t.h.) afhendir Kristjáni Jóhannssyni (t.v.) myndina af Guðrúnu Jónsdóttur

Arnar Kristjánsson (t.h.) afhendir Kristjáni Jóhannssyni (t.v.) myndina af Guðrúnu Jónsdóttur

fimmtudagurinn 10. janúar 2019

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., árið 2018.

Á árinu 2018 öfluðu skip félagsins 13.177 tonna að verðmæti 3.129 milljóna króna samanborið við 10.611 tonna afla að verðmæti 2.472 milljóna króna árið 2017.  Aflamagn jókst um 24% og aflaverðmæti um 26,6%.

  2018 2018 2017 2016
  Tonn Milljónir Milljónir Milljónir
Samtals 13.177 3.129 2.472 3.131
Júlíus Geirmundsson 5.168 1.572 1.412 1.467
Páll Pálsson 1274 gamli     231 869
Páll Pálsson 2904 nýi 2.589 496    
Stefnir 5.305 1.027 793 719
Valur og Örn 115 34 36 76
fimmtudagurinn 27. desember 2018

Áramótakveðja framkvæmdastjóra

Tímamót hafa orðið í sögu HG, starfsmanna þess og íbúa hér við Djúp á árinu sem er að líða.


Staða fiskeldismála

Eftir 16 ára uppbygginarskeið í fiskeldi er svo komið að dótturfyrirtækið Háafell er ekki með neinn fisk í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Þrátt fyrir að framleiða heilbrigð og hraust laxaseiði á Nauteyri höfum við þurft að láta þau frá okkur vegna stöðu leyfismála sem velkjast um í stjórnkerfinu. Því miður hefur það leitt til uppsagna á reynslumiklu og góðu starfsfólki sem mikil eftirsjá er að.

Vonir voru bundnar við endurskoðun áhættumats erfðablöndunar sem forstjóri Hafró hafði boðað þegar „sól stæði hæst á lofti“. Sumarsólstöðurnar urðu þó ekki fyrr en 5. júlí. Ekki var staðið við endurskoðun matsins en tilkynnt að óskað yrði eftir samstarfsaðilum um eldi á 3.000 tonnum af laxi í Djúpinu. Átti auglýsing í þá veru að birtast í lok ágúst, það stóðst ekki.  Háafell fékk þá upplýsingar um að auglýst yrði í október, það stóðst ekki heldur. Síðan þá hefur forstjóri Hafró ekki séð ástæðu til þess að svara fyrirspurnum Háafells um málið þrátt fyrir ítrekaðar óskir .
Samfélögin við Djúp eru því í gíslingu Hafró og stjórnsýslunnar og á meðan koðna niður réttmætar væntingar til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu.  Er það því einlæg ósk okkar að stjórnmálamenn muni á nýju ári setja strangar og skýrar reglur um fiskeldi sem hægt verður að vinna eftir og treysta á. Óvissan er okkar versti óvinur.


Nýr Páll Pálsson

Þrátt fyrir mótlæti í uppbyggingu fiskeldis er vert að gleðjast yfir komu nýs ísfisktogara fyrirtæksins. Nýr og glæsilegur Páll Pálsson ÍS 102 sigldi inn Djúpið þann 5. maí og tók fjölmenni á móti áhöfninni eftir langa siglingu frá Kína. Aðstaða um borð er til fyrirmyndar, við hönnun skipsins var sérstaklega horft til orkusparnaðar og mikil áhersla er lögð á góða meðferð á afla til þess að hámarka gæði. Með meiri kröfum og harðari samkeppni er nauðsynlegt að hafa bestu tæki sem völ er á. Þannig tekst okkur að laða til okkar hæfasta starfsfólkið og framleiða vörur í hæsta gæðaflokki. Vil ég við þetta tækifæri þakka kærlega fyrir allar þær árnaðaróskir og kveðjur sem okkur bárust vegna þessara tímamóta.  

 

Útvegurinn í forystu

Veiðar og vinnsla hafa gengið vel á árinu enda ástand fiskistofna við Íslandsstrendur almennt gott. Sem dæmi fór aflaverðmæti á Stefni ÍS í fyrsta sinn yfir milljarð á almanaksárinu en aflinn var 5.250 tonn. Sjálfbær nýting og góð umgengni við auðlindir eru lykilatriði fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í dag, hvort sem er í villtum fiskistofnum eða eldisfiski.
Plastmengun, súrnun sjávar og losun gróðurhúsalofttegunda eru allt hættur sem steðja að sjálfbærri nýtingu ef ekki verður brugðist við. Sjávarútvegurinn hefur tekið af skarið og er í forystu á Íslandi í því að minnka olíunotkun. Frá árinu 1990 hefur olíunotkun á Íslandi aukist um 57% en í sjávarútvegi hefur hún dregist saman um 46%.  Slíkur árangur næst til dæmis vegna fjárfestinga í sparneytnari skipum eins og Páli Pálssyni þar sem væntingar eru um að losun á hvert veitt kíló af fiski verði tugum prósenta minni en á fyrirrennara hans.

Starfsmönnum okkar þakka ég samfylgdina á árinu sem er að líða og óska  þeim og landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári.


Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG.
 

sunnudagurinn 23. desember 2018

Gleðileg jól

HG óskar núverandi og fyrrum starfsfólki sínu, fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Samkvæmt venju hefjast jólin á Hnífsdalsbryggju með skötuveilsu í hádegi síðasta vinnudags fyrir jól. Árið í ár var engin unantekning, vel var mætt á föstudaginn og bragðaðist skatan sem er verkuð af Lionsmönnum á Ísafirði einstaklega vel.

þriðjudagurinn 21. ágúst 2018

Háafell sækir að nýju um regnbogasilungsleyfi

Háafell, dótturfélag Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf, hefur sótt að nýju um starfs- og rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og 200 tonna framleiðslu af þorski á ári í Ísafjarðardjúpi. 

Í júli 2017 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfsleyfi Háafells fyrir sömu framleiðslu úr gildi vegna kæru veiðiréttarhafa. Tekið hefur verið tillit til þeirra annmarka sem úrskurðarnefndin rökstuddi sína ákvörðun með en þeir voru tæknilegs eðlis.

Frá árinu 2011 hefur Háafell stefnt að því að hafa leyfi til þess að ala bæði regnbogasilung og lax í Ísafjarðardjúpi og felst því engin stefnubreyting í umsókninni. Þvert á móti endurspeglar hún skýran vilja til þess að starfrækja áfram umhverfisvænt fiskeldi í Ísafjarðardjúpi líkt og fyrirtækin hafa gert síðan árið 2002.
Mikil þekking hefur skapast hjá starfsmönnum fyrirtækisins á rekstri slysalauss sjókvíaeldis undanfarin 16 ár sem mikilvægt er að missa ekki niður heldur nýta og byggja á til framtíðar og er umsóknin liður í því.

Háafell hefur lagt mikla vinnu í að mæta hagsmunum veiðiréttarhafa í gegnum 7 ára umsóknarferlið, á þann hátt að fiskeldið og nýting veiðivatnanna geti farið saman. Liður í því er útfærsla og tillögur um mótvægisaðgerðir sem byggja á bestu reynslu annarra eldisþjóða.
Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar uppbyggingaráform Háafells  og tillögur að mótvægisaðgerðum við Ísafjarðardjúp er bent á ítarlega matsskýrslu Háafells fyrir laxeldi.