Tíðindi

mánudagurinn 13. janúar 2020

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., árið 2019.

Á árinu 2019 öfluðu skip félagsins 19.263 tonna að verðmæti 4.648 milljóna króna. Aflatölur eru miðaðar við afla uppúr sjó, ólægðan afla.

 

  2019 2019
  Tonn Milljónir
Samtals 19.263 4.648
Júlíus Geirmundsson 6.616 2.199
Páll Pálsson  7.162 1.344
Stefnir 5.317 1.051
Valur, innfjarðarrækja. 168 54
þriðjudagurinn 31. desember 2019

Áramótakveðja framkvæmdastjóra

Áramótakveðja framkvæmdastjóra

Á árinu sem er að líða hefur rekstur og starfsemi Hraðfrystihússins-Gunnvarar  gengið vel.

Staða eldismála

Á árinu fékk Háafell, dótturfélag HG, útgefið stækkað leyfi fyrir seiðaeldisstöð félagsins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp en þar hafa verið framleidd heilbrigð laxa- og regnbogasilungsseiði um árabil. Eins hafa leyfi fyrir regnbogasilungseldi í sjókvíum verið auglýst. Eru þetta jákvæð skref í uppbyggingaráformum Háafells í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.

Ríflega átta ár eru síðan áform um laxeldi Háafells voru fyrst kynnt stjórnsýslunni. Ennþá ríkir þó fullkomin óvissa um fyrirkomulag laxeldis við Ísafjarðardjúp. Það skýtur skökku við að það sé Háafell, eina alíslenska fyrirtækið sem hefur gildar umsóknir í laxeldi, sem situr uppi með algjöra óvissu um hvenær uppbygging getur hafist, á meðan öðrum fyrirtækjum hefur verið gert kleift að byggja sig upp á öðrum svæðum.

Ekki virðist skipta máli hve oft sól stendur hæst á lofti við Djúp, ekki bólar enn á nýju áhættumati sem þó hefur verið boðað trekk í trekk af hendi Hafrannsóknastofnunar. Enn sitja því fyrirtæki og samfélög við Djúp eftir í óvissu, á svæði sem hefur verið skilgreint sem fiskeldissvæði. Stjórnvöld bera ábyrgð á að leyfisveitingar séu byggðar á bestu vísindum og mótvægisaðgerðum. Miðað við reynslu okkar undanfarin misseri og ár hefur stjórnvöldum mistekist algjörlega að uppfylla þetta hlutverk sitt. Það er hinsvegar von mín að á nýju ári sjái menn að sér og tryggi að hægt verði að hefja langþráða uppbyggingu laxeldis við Ísafjarðardjúp af fullum krafti.

Sjávarútvegur í forystu í umhverfismálum

Umhverfismál skipa sífellt stærri sess í rekstri fyrirtækja og ekki síst  í sjávarútvegi. Heilbrigt haf er allra hagur. Plast í hafi, súrnun sjávar og hlýnun eru aðkallandi áskoranir sem bregðast verður við. Sem betur fer hefur orðið mikil vitundarvakning um umhverfismálin og hefur íslenskur sjávarútvegur lagt sig fram um að vera í forystu í þeim efnum. Sem dæmi má nefna að um 1.100 tonn af veiðarfærum eru endurunnin á ári.  Frá árinu 1995 hefur CO2 losun  í sjávarútvegi dregist saman um 48% á sama tíma og CO2 losun frá íslenska hagkerfinu hefur tvöfaldast. Slíkur árangur hefur náðst vegna mikilla fjárfestinga í greininni, meðal annars í sparneytnari skipum eins og til að mynda nýja Páli Pálssyni, sem og með hagkvæmu kvótakerfi sem stuðlað hefur að skynsamlegri nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Veiðar, vinnsla og markaðir

Veiðar og vinnsla hafa gengið vel, svo og sala afurða samfara jákvæðri þróun afurðaverðs. Togarar fyrirtækisins, Júlíus Geirmundsson, Páll Pálsson og Stefnir hafa allir aflað vel  og Valur gerði það gott í innfjarðarrækjunni. Það sem þó er mest um vert er að árið hefur verið áfallalaust bæði til sjós og lands .

Núverandi og fyrrverandi starfsmönnum okkar þakka ég samfylgdina á árinu sem er að líða og óska  þeim og landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf.

sunnudagurinn 10. nóvember 2019

Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 þrjátíu ára.

Mikið happaskip – Borið að landi 135 þúsund tonn að verðmæti 50 milljarðar króna

Þann 10. nóvember 2019 eru þrjátíu ár frá því að frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom fyrst til heimahafnar á Ísafirði.  Forsaga þess er að Gunnvör hf. samdi árið 1987 við skipasmíðastöðina Gryfia í Stettin i Póllandi um smíði á skuttogara eftir teikningu Ísfirðingsins Bárðar Hafsteinssonar skipaverkfræðings hjá Skipatækni hf.  Eigendur Gunnvarar hf. þekktu vel til hans þar sem eitt fyrsta verkefni hans sem skipaverkfræðings var eftirlit  með byggingu  fimm skuttogara fyrir Vestfirðinga í Flekkefjord í Noregi á árunum 1971-1974. 

Stífar reglur giltu um endurnýjun skipa á þessum árum og til að fá veiðileyfi á nýtt skip þurfti að taka annað úr rekstri.  Leyft var að nýju skipin væru 33%  stærri en þau gömlu og var nýi togarinn hannaður með tilliti til þessara reglna. Eldri  Júlíus (III) þurfti því að hverfa úr rekstri hér á landi til að veiðileyfi fengist á nýja skipið. Það fór þó svo að Síldarvinnslan hf. á Neskaupstað festi kaup á skipinu og var það nefnt Barði NK. 120.   Tók Gunnvör hf. gamla  Barða NK 120 upp í kaupin en það var mun minna skip smíðað í Póllandi árið 1975. 

 

Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 (IV) kemur í fyrsta sinn til heimahafnar á Ísafirði (myndasafn H-G hf)

Samningurinn við pólsku skipasmíðastöðina var með öðru sniði en vant var, hún sá um smíði skrokksins, en Gunnvör hf. lagði til mest allan búnað. Þetta kom til m.a. vegna þess að þjóðfélagið í Póllandi var mjög lokað á þessum árum, strangar reglur um gjaldeyrisviðskipti og skriffinnska mikil. Á þessu slaknaði mjög á byggingartíma skipsins og allt orðið mun frjálsara þegar það var afhent, enda þá einungis átta dagar í fall Berlínarmúrsins.

Í fyrstu var gert ráð fyrir að skipið yrði ísfisktogari  með möguleika á að heilfrysta afla, en á byggingartímanum var ákveðið að breyta því í flakafrystiskip.

Nýr Július Geirmundsson ÍS 270, sá fjórði með því nafni, kom til heimahafnar á Ísafirði 10. nóvember 1989 eins og áður sagði og að venju var gerð ítarleg grein fyrir komu þess í blöðum. Í Morgunblaðinu 12. nóvember birtist eftirfarandi:

Verksmiðjuskipið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til Ísafjarðar á sl. föstudag. Skipið hefur vinnslugetu á við lítið sjávarþorp, en við það starfa einungis 27 menn, 25 um borð og 2 á skrifstofu í landi. Skipið fer til veiða í næstu viku, en það á um 1000 tonna kvóta á þessu ári. Það var skipasmíðastöð í Stettin í Póllandi sem smíðaði skipið en Skipatækni hf. hannaði.Vinnslulínur eru að mestu danskar og þýskar, en vogir eru frá Pólstækni á Ísafirði. Framleitt er undir eigin nafni, Julius Brand, og selt er beint á erlenda markaði. 

Að sögn Kristjáns Jóhannssonar útgerðarstjóra skipsins, er það 1.403 brúttótonn eftir nýju mælingunni, 57,5 metrar á lengd, 12 metra breitt og hefur meðaldjúpristu upp á 5 metra.Vélin er 3.342 hestafla, Wärtsilä, vindur frá Brusseles, tölvutrollstýribúnaður frá Rafboða, frystibúnaður frá Söby og fiskvinnsluvélar frá Baader. 

Fiskurinn er fullunninn um borð og er afkastageta um 42 tonn af fullunnum afurðum á sólarhring, en það jafngildir um 100 tonna afla upp úr sjó. Á venjulegum skuttogara af þessari stærð eru um 15 menn i áhöfn þannig að aðeins er bætt við 10 mönnum til að fullvinna veiðina. 

Kaupverð skipsins er 470 milljónir króna.  Skipstjóri á Júlíusi er Hermann Skúlason, yfirvélstjóri Þorlákur Kjartansson og 1. stýrimaður Ómar Ellertsson.  – Úlfar  (Morgunblaðið 12. nóvember 1989, bls. 2)

Gunnvör hf. og Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal sameinuðust árið 1999 undir nafninu Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. og hefur Júlíus Geirmundsson verið gerður út af því síðan.  Alla tíð hefur útgerð skipsins gengið vel  og á þessum  þrjátíu árum, út hefur það fært að landi um 135 þúsund tonn og má áætla að verðmæti þess afla á verðlagi ársins 2019 sé um 50 milljarðar króna.

 

fimmtudagurinn 1. ágúst 2019

Viðurkenning fyrir góða öryggisvitund

Áhöfn Páls Pálssonar ÍS 102 hlaut á dögunum viðurkenningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg fyrir að hafa sýnt fremur góða öryggisvitund á námskeiðum Slysavarnarskóla sjómanna.

Skipstjóri er Páll Halldórsson en Sigríður Inga Pálsdóttir tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd áhafnarinnar.

Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar afhenti viðurkenninguna sem er farandbikar til varðveislu í eitt ár ásamt veggskildi til eignar

 

 

föstudagurinn 19. júlí 2019

Mynd skilar sér eftir 57 ár

Fyrir skömmu síðan lagði togskipið Ísborg ÍS 250 af stað áleiðis til Belgíu með vélbátinn Heru ÞH í togi, en skipin hafa verið seld til niðurrifs.   Hera var byggð í Flekkefjord í Noregi árið 1962 fyrir Gunnvöru hf. á Ísafirði og bar nafnið Guðrún Jónsdóttir ÍS 267.  Var hún gerð út frá Ísafirði á árunum 1963-1971 á línu, net, síld og botnvörpu undir farsælli stjórn Vignis Jónssonar, Hermanns Skúlasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar Bar skipið mikinn afla að landi á þeim tíma og sem dæmi um það var afli þess árið 1964 alls 5.200 tonn. Skipið þótti stórt og efuðust margir um að raunhæft væri að gera út slíkt skip frá Ísafirði, en reyndin varð sú að skipum af þessari stærð og þaðan af stærri átti eftir að fjölga mikið á næstu árum. 

 

Nú á Gunnvör hf. í smíðum  í Noregi 150 – 170 smál. stálskip, sem bætist við fiskiskipaflotann hér í bænum fyrir eða um næstu áramót. Ber þetta framtak vissulega vott um stórhug og dugnað. (Blaðið Ísfirðingur,  4. apríl 1962, bls. 1)

Guðrún Jónsdóttir ÍS 267 nýkomin til heimahafnar á jólum 1962

 

Guðrún bar nafn móður tveggja eigenda Gunnvarar hf., bræðranna Jóhanns og Þórðar Júlíussona og frá upphafi var mynd af henni um borð í skipinu og fylgdi því  alla tíð.  Nokkru áður en skipið lagði í ferðina til Belgíu færði eigandi þess, Arnar Kristjánsson útgerðarmaður,  Kristjáni syni Jóhanns myndina til varðveiðslu. 

 Arnar Kristjánsson (t.h.) afhendir Kristjáni Jóhannssyni (t.v.) myndina af Guðrúnu Jónsdóttur

Arnar Kristjánsson (t.h.) afhendir Kristjáni Jóhannssyni (t.v.) myndina af Guðrúnu Jónsdóttur