Tíðindi

laugardagurinn 9. desember 2017

Eldsvoði í húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. við Ísafjarðarhöfn.

Mikill eldur kom upp í húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. við Árnagötu 3 á Ísafirði um kl. 23.00 í gærkvöldi.

Húsnæðið var mannlaust og sem betur fer steðjaði engin hætta að fólki.  Mikinn reyk lagði frá húsinu yfir neðri hluta Eyrarinnar í logninu í gærkvöldi.

Slökkvilið Ísafjarðar, Ísafjarðarflugvallar og Bolungarvíkur, björgunarsveitamenn frá Ísafirði, hafnarstarfsmenn og fleiri unnu að því að ráða niðurlögum eldsins og bjarga „Rauða húsinu“ svokallaða sem flutt var frá Hesteyri árið 1956, tókst það verk giftusamlega. Slökkvistarfinu lauk á fimmta tímanum í morgun.

Húsnæði skipaþjónustunnar var um 700 fermetrar að flatarmáli og er það brunnið til kaldra kola auk alls þess sem inní því var.

Eldsupptök eru ókunn og vinnur lögreglan að rannsókn málsins.

Forsvarsmenn Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. þakka öllum þeim sem komu að slökkvistarfinu og veittu hjálp fyrir fagmennsku og fumlaus vinnubrögð við sín störf.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri í síma 8942478

miðvikudagurinn 23. ágúst 2017

Háafell segir sig úr Landssambandi Fiskeldisstöðva.

Háafell, fiskeldisfyrirtæki í eigu Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. í Hnífsdal (HG) hefur sagt sig úr Landssambandi Fiskeldisstöðva (LF) en fyrirtækið hefur verið félagi í samtökunum í rúm 15 ár og fulltrúi þess átt sæti í stjórn samtakanna undanfarin ár.

Um nokkurt skeið hefur framganga LF fjarlægst þá stefnu og sýn sem Háafell vill byggja á í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Í síðustu viku skrifuðu fulltrúar LF  athugasemdalaust undir stefnumótunarskýrslu í fiskeldi þar sem m.a.  er lagt til að áform um uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi verði slegin út af borðinu og þar með 6 ára réttmætar væntingar Háafells, samfélagsins við Djúp og íbúanna að engu hafðar. Háafell hefur lagt sig sérstaklega fram um að vanda til verka í umsóknarferlinu, uppbyggingaráformin eru varfærin og hugsuð yfir lengri tíma, búið er að fara í gegnum ítarlegt samráðsferli með hagsmunaaðilum og íbúum og leggja til og útfæra mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Ekki er tekið tillit til ofantaldra þátta í skýrslunni heldur virðist skýrslan fremur vera einhverskonar samkomulag milli stærstu eldisfyrirtækjanna og veiðiréttarhafa. Háafell mun áfram beita sér fyrir því að byggja varsamlega upp laxeldi í Ísafjarðardjúpi samkvæmt ströngum kröfum, í sátt við umhverfið og til hagsbóta fyrir samfélagið.

HG og síðar Háafell hafa stundað farsælt eldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2002 og verið með umsókn um 7000 tonna laxeldisleyfi í  stjórnkerfinu síðan 2011. Háafell er eina eldisfyrirtækið sem er alíslenskt og í eigu heimamanna sem vinnur að uppbyggingu laxeldis í sjókvíum við Ísland.

Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells: „Það er augljóst að með þessu er ekkert tillit tekið til þeirrar vönduðu og miklu vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Því síður eru hagsmunir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum nokkurs metnir. Og það er í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svift þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

 

 

Greinargerð:

Háafell hefur alla tíð lagt áherslu á að fiskeldi á Íslandi verði byggt upp á þekkingu, rannsóknum og vísindum og lagt áherslu á að ekki verði farið of geyst í uppbyggingu á meðan reynsla fæst á eldið hérlendis. Ítarlega er gerð grein fyrir sýn fyrirtækisins og áformum í frummatsskýrslu. Í samskiptum við stjórnvöld hefur Háafell komið með fjölda tillagna varðandi ýmis íþyngjandi ákvæði er varða umhverfismál og sum þeirra hafa verið tekin upp í íslenskt regluverk, t.d. norski búnaðarstaðallinn NS 9415.

Undanfarið, rúmlega hálft ár, hefur verið unnið að stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Þar hefur LF átt tvo fulltrúa ásamt veiðiréttarhöfum og fulltrúum frá stjórnvöldum. Á sínum rannsóknamiðaða grunni samþykkti Háafell fyrir sitt leiti að Hafrannsóknarstofnun mæti hættu á mögulegri erfðablöndun eldislax við villtan lax en slíkt mat er mikilvægur þáttur í þeirri heildarmynd sem þarf að skoða þegar stefnumótun fyrir starfsgreinina er unnin. Hinsvegar er verið að þróa nýja og vandasama aðferðafræði sem ekki hefur verið reynd áður og eðlilegt að einhvern tíma taki að fullgera.

Eins og kunnugt er er niðurstaða áhættumatsins að leyfa ekki laxeldi í Ísafjarðardjúpi að svo stöddu. Í stefnumótunarskýrslunni er hins vegar lagt til að ganga lengra en Hafró með því að lögfesta áhættumatið og niðurstöður án þess að búið sé að sannreyna forsendur, aðferðafræði og vísindin á akademískan hátt og taka tillit til athugasemda.  

Helstu athugasemdir Háafells við stefnumótunarskýrsluna sem fulltrúar LF skrifuðu undir eru:

- Taka verður tillit til þeirrar þekkingar og tækni sem er til staðar til þess að koma í veg fyrir hugsanlega erfðablöndun. Í áhættumatsskýrslu Hafró er vísir að slíkum mótvægisaðgerðum en erlendis hefur mun fleiri aðferðum verið beitt með mjög góðum árangri og hefur Háafell lagt til og útfært slíkar aðgerðir til þess að beita m.a. í Ísafjarðardjúpi. Meðfylgjandi er samantekt á mótvægisaðgerðum Háafells. (Mótvægisaðgerðir

-Ef lögfesta á nýtt vísindalegt stjórntæki þarf það að standa á föstum vísindalegum grunni. Í dag er það ekki hafið yfir allan vafa, t.d. benda vísindamenn Hafró sjálfir á að áhættumatið sé lifandi og hægt sé að leiðrétta það þegar fram líða stundir. Mikið eðlilegri nálgun er að klára að  fullvinna matið áður en afdrifaríkar ákvarðanir fyrir fyrirtæki og samfélög eru tekin á grundvelli þess.

-  Ekki er tekið nægjanlegt tillit til samfélagslegrar, efnahagslegrar og byggðalegrar þýðingar í stefnumótunarskýrslunni sem hljóta að vera þættir sem þarf að fara gaumgæfilega yfir við framtíðarstefnumótun starfsgreinarinnar. T.d. hafa íbúar við Ísafjarðardjúp síðastliðin 6 ár haft réttmætar væntingar um uppbyggingu á umhverfisvænni matvælaframleiðslu undir ströngustu kröfum sem eru að engu hafðar í stefnumótunarskýrslunni.

Háafell hafði samþykkt í stjórn LF að skrifað yrði undir stefnumótunarskýrsluna með því skilyrði að lögð yrði fram bókun þar sem hluti af fyrrnefndum athugasemdum kæmu fram. Fyrir því var vilji innan stjórnar LF en á ögurstundu þegar skrifa átti undir dró LF bókun sína til baka og var skrifað undir athugasemdalaust.

LF eru sameiginleg hagsmunasamtök fiskeldisfyrirtækja á Íslandi sem hafa með þeirri ákvörðun sinni  að skrifa undir skýrsluna án athugasemda, sýnt að þau starfi ekki í þágu allra aðildarfélaga sinna. Þegar ákvarðanir og vinnubrögð LF ganga í berhögg við stefnu, sýn og hagsmuni aðildarfélags er vandséð að þau eigi samleið mikið lengur. Eftir mikla ígrundun er það því niðurstaða Háafells að segja sig frá samstarfi við LF.

Háafell mun áfram tala fyrir uppbyggingu sjálfbærs fiskeldis á Íslandi , byggt á þekkingu, reynslu og sannreyndum vísindum og mun áfram leggja sitt af mörkum til þess að svo verði í samvinnu við hagsmunaðila, stofnanir og stjórnvöld.

 

Frekari upplýsingar veitir Kristján G. Jóakimsson, farsími 8931148.

þriðjudagurinn 4. júlí 2017

Sjávarútvegsskólinn í heimsókn

Nemendur Sjávarútvegsskólans á Ísafirði komu í heimsókn í Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í síðustu viku, skoðuðu landvinnslu fyrirtækisins og kynntu sér sjómannsstarfið í Stefni ÍS 28. Þetta er annað árið í röð sem skólinn er starfræktur fyrir 14 ára krakka. Markmiðið með skólanum er að auka áhuga og efla þekkingu nemenda á sjávarútvegi og tengdum greinum á sínu heimasvæði. Kennslan er byggð upp með blöndu af fyrirlestrum og heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Í fyrirlestrum er farið yfir helstu nytjastofna, vinnslu og veiðar, markaði, hliðargreinar og nýsköpun auk þess sem farið er yfir menntunarmöguleika tengda sjávarútvegi sem bjóðast í framhaldsskólum, verkmenntaskólum og háskólum.

HG er stoltur samstarfsaðili í þessu verkefni og hver veit nema hugmyndir um framtíðarstörf eða ónýtt tækifæri kvikni hjá þessum ungu og upprennandi krökkum.

miðvikudagurinn 28. júní 2017

Farsæl 44 ár hjá Páli Pálssyni ÍS 102.

Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102 landaði í morgun í síðasta sinn afla til vinnslu hjá Hraðfrystihússinu – Gunnvöru hf. í Hnífsdal, en eins og kunnugt er hefur skipið verið selt til Vinnslusvöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum.  Í nær fjörutíu og fimm ár hefur Páll verið gerður út frá Hnífsdal og verið burðarás í landvinnslu fyrirtækisins.  Í haust tekur síðan nýr Páll Pálsson ÍS 102, við keflinu en unnið er að lokafrágangi hans Kína.

Páll var einn af fyrstu skuttogurum Íslendinga þegar hann kom nýr til landsins í febrúar 1973 frá Japan þar sem hann var smíðaður.  Ýmsar nýjungar fylgdu komu skuttogaranna, t.d. gjörbreyttist öll aðstaða fyrir áhöfn og byrjað var að ísa aflann í plastkassa um borð. Síðar komu fiskkerin og öflugri og betri kæling til sögunnar en skipið fór í endurbætur og lengingu árið 1988 í Póllandi.  Aflasæld hefur fylgt skipinu alla tíð og hefur það borið að landi um 220 þúsund tonn af fiski sé miðað óslægðan afla uppúr sjó.  Aflaverðmætið þessi fjörutíu og fimm ár á núverandi verðlagi er um 45 milljarðar króna.   

Slíkum árangri er ekki hægt að ná nema með góðu skipi og vel mannaðri áhöfn. Mannabreytingar hafa verið mjög litlar í áranna rás, sem sést best á meðalstarfsaldur áhafnar áhafnarinnar er yfir 20 ár. Meðal þeirra sem nú eru í áhöfn hefur Guðmundur Sigurvinsson vélstjóri verið lengst eða í 36 ár samfleytt Páli en hann hefur ákveðið að nú sé komið gott og fer í land.  Aðeins þrír skipstjórar hafa verið á skipinu, Guðjón Arnar Kristjánsson sótti Pál til japan og var skipstjóri í 19 ár, Kristján Jóakimson var skipstjóri í 4 ár,  en lengst hefur Páll Halldórsson verið skipstjóri en hann hefur verið við stjórnvölinn síðastliðin 22 ár. Nú styttist í að Páll haldi til Kína til þess að sækja nýjan og glæsilegan Pál Pálsson.

Við þessi tímamót vilja stjórnendur Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf,  þakka núverandi og fyrrverandi skipverjum Páls Pálssonar samstarfið og óska þeim velfarnaðar.

miðvikudagurinn 21. júní 2017

Niðurstaðan vonbrigði

Í gær, þann 20. júní, ógilti úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála starfsleyfi Háafells fyrir eldi á 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og 200 tonna framleiðslu á þorski.  Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð Umhverfisstofnunar við útgáfu starsleyfisins hafi ekki verið fullnægjandi.

Kristján G. Jóakimsson verkefnastjóri Háafells segir niðurstöðuna vonbrigði: „Fyrirtækið hóf umsóknarferli vegna eldis fyrir sex árum og mikil áhersla hefur verið lögð á að vanda vel til verka og uppfylla ítrustu kröfur sem gerðar eru lögum samkvæmt og koma til móts við ólík sjónarmið. Það eru því vonbrigði að niðurstaðan skuli vera þessi en rétt að hafa í huga að athugasemdir úrskurðarnefndarinnar snúa að tæknilegum atriðum innan stjórnsýslunnar, en ekki Háafelli.“

Kristján segir að úrskurðurinn ætti ekki að setja fyrirætlanir Háafells í uppnám, tiltölulega auðvelt ætti að vera fyrir stjórnsýsluna að laga þá annmarka sem úrskurðarnefndin bendir á:

„Úrskurðurinn veitir væntanlega færi á því að Umhverfisstofnun fari vel yfir sína ferla og bæti úr þeim annmörkum sem úrskurðarnefndin bendir á. Ég sé ekki hvernig Háafell hefði átt að standa öðruvísi að sínum hlut. Við höfum fylgt eftir bókstaf laganna í einu og öllu. Við erum nú á lokametrunum með umhverfismat vegna laxeldis í Ísafjarðardjúpi, við höfum lagt mikla vinnu í allt ferlið og því ættum við, gangi allt eftir, að geta haldið áfram markvissri uppbyggingu á eldi í Ísafjarðardjúpi í haust eða strax á nýju ári.“