Tíðindi

þriðjudagurinn 19. janúar 2021

Áttatíu ár frá stofnun Hraðfrystihússins hf.

Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal var stofnað fyrir áttatíu árum,  19. janúar 1941. Stofnendur voru 19 talsins. Á fjórða áratug síðustu aldar lokuðust saltfiskmarkaðir á Spáni vegna borgarastyrjaldar, en þeir höfðu verið mikilvægir fyrir íslenskan sjávarútveg.  Á þeim tíma fór hraðfrysting sjávarafurða að ryðja sér til rúms og vildu Hnífsdælingar taka þátt í því og tóku útgerðarmenn sig því saman um að setja á fót frystihús.    Strax eftir stofnun félagsins var farið að huga að byggingu frystihúss í Skeljavík nokkuð innan við byggðina í Hnífsdal og um ári síðar var byrjað að taka á móti fisk til vinnslu. Bátarnir stækkuðu í áranna rás, síðar kom skuttogari og húsakostur og framleiðsla jukust í samræmi við það.

Eftir sameiningar sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum á tíunda áratug síðustu aldar  sameinuðust Hraðfrystihúsið hf og Gunnvör hf á Ísafirði ásamt dótturfélögum þeirra árið 1999 undir nafninu Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf.

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf gerir í dag út þrjá skuttogara og einn rækjubát, er með fiskvinnslu í Hnífsdal og niðursuðuverksmiðju  í Súðavík. Um 160 stöðugildi eru hjá fyrirtækinu og það hefur notið þess að hafa alla tíð haft trausta starfsmenn bæði til sjós og lands.  Margir þeirra eru og hafa verið  með langan starfsaldur.  Aflamark félagsins er rúm ellefu þúsund þorskígildi og hefur  velta félagsins verið um 6 milljarðar  króna síðustu árin

Háafell ehf, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, stundar nú eldi á regnbogasilungi í kvíum í Ísafjarðardjúpi og hefur leyfi til að framleiða um sjö þúsund tonn á ári.   Nú nýverið birti Skipulagsstofnun jákvætt álit um breytingu  þessa leyfis yfir í eldi á laxi. Því eru  starfs- og rekstrarleyfi á nánast sömu staðsetningum og núverandi regnbogasilungsleyfi í vinnslu hjá MAST og UST.   Auk þess er Háafell með seiðaeldisstöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi og rekur tvö þjónustuskip fyrir eldið ásamt þjónustumiðstöð fyrir sjókvíaeldið í Súðavík.

miðvikudagurinn 23. desember 2020

Gleðileg jól.

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf, óskar núverandi og fyrrverandi starfsfólki sínu, fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

sunnudagurinn 25. október 2020

Yfirlýsing Hraðfyrstihússins-Gunnvarar vegna hópsmits um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270

Í ljósi þeirra frétta sem birst hafa liðna daga um hópsmit skipverja um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 vill Hraðfrystihúsið-Gunnvör koma á framfæri eftirfarandi:

Fyrirtækið telur ljóst, líkt og áður hefur komið fram í fyrri yfirlýsingu, að rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveiru um borð í skipinu til Landhelgisgæslunnar og láta þeim yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar. Slík framkvæmd hefði enda verið í samræmi við þær leiðbeiningar, sem viðhafa ber í þessum aðstæðum, og SFS og stéttarfélög sjómanna komu sér saman um við upphaf kórónuveirufaraldursins. Því miður fórst það fyrir og ábyrgð á þeim mistökum mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla. Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum.

Það var aldrei ætlun útgerðar eða skipstjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skipsins í hættu og fyrirtækinu þykir þungbært að sitja undir ásökunum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfsmanna. Ítrekað skal að fyrirtækinu þykir miður að ekki hafi verið brugðist við með réttum og viðeigandi hætti. Nú er verkefnið að styðja við þá áfhafnarmeðlimi sem glíma við veikindi og byggja upp á ný það traust sem hefur glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins vegna atviksins.

Einar Valur Kristjánsson, 

Framkvæmdastjóri

 

miðvikudagurinn 21. október 2020

Tilkynning vegna COVID-19.

Niðurstaða mótefnamælinga meðal skipverja á frystiskipinu, Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270, liggja nú fyrir. Níu skipverjar hafa jafnað sig á veikindunum, eru með mótefni og því frjálsir ferða sinna. Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun. Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví. Fimm fóru í farsóttarhús í nágrenni Ísafjarðar sem sett hafði verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum. Tveir verða eftir um borð í skipinu.

Fyrirtækið vill koma því á framfæri að fljótlega eftir að  bera fór á flensueinkennum meðal áhafnar var haft samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ekki þótti ástæða til að kalla skipið  til hafnar á þeim tíma. Eftir 3 vikur á veiðum var ljóst í kjölfar skimunar allra áhafnarmeðlima að COVID-19 smit var um borð, var skipinu þá umsvifalaust snúið til hafnar. Í ljósi þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar og setja alla áhöfnina í skimun.  

Í lestum skipsins eru um 213 tonn af frystum afurðum. Matvælastofnun (MAST) gefur að öllu jöfnu út heilbrigðisvottorð fyrir afurðir sem fluttar eru út til ríkja utan EES. Innan EES er unnið í samræmi við evrópska matvælalöggjöf. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er ekkert sem bendir til þess að COVID-19 geti borist með matvælum og er það samkvæmt áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru sama sinnis og hafa gefið út leiðbeiningar um COVID-19 og matvæli, sjá nánar hér.

Á næstu dögum verður skipið sótthreinsað með viðeigandi efnum í samræmi við viðurkennda verkferla þar til bærra aðila.

mánudagurinn 19. október 2020

Tilkynning.

Meirihluti áhafnar frystiskipsins, Júlíusar Geirmundssonar Ís 270, sem gerður er út af Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf,  á Ísafirði, reyndist smitaður af COVID-19.

Þetta varð ljóst eftir að sýni voru tekin úr allri áhöfninni, þegar skipið kom til hafnar í gærkvöldi til olíutöku á Ísafirði. Veiðiferðin hafði þá staðið í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni. Þegar skipið kom til hafnar fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð til sýnatöku, en enginn úr áhöfn fór í land.

Að sýnatöku lokinni lagði skipið úr höfn, en niðurstöður úr sýnatöku komu ekki fyrr en nú undir kvöld. Þegar þær lágu fyrir var veiðum þegar hætt og skipinu snúið til hafnar og er það væntanlegt til Ísafjarðar á morgun. Enginn um borð virðist vera alvarlega veikur. Útgerðin mun ákveða næstu skref í fullu samráði við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.

 

Einar Valur Kristjánsson

famkvæmdarstjóri