Tíðindi

föstudagurinn 6. desember 2002

30 ár liðin frá því að Vestfirðingar eignuðust sinn fyrsta skuttogara

Þann 5. desember 1972 kom í fyrsta sinn til hafnar á Ísafirði skuttogarinn Júlíus Geirmundsson. Í dag eru því 30 ár frá skuttogaravæðingu á Vestfjörðum.

Júlíus var fyrstur í röð 6 togara sem samið hafði verið við norska skipasmíðastöð um smíði á. Kaupverðið var 120 milljónir sem gætu verið um 460 til 480 milljónir á verðlagi dagsins í dag. Systurskip Júlíusar eru Framnes ÍS-708 og Stefnir ÍS-28 sem Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf gerir út, Stefnir er að vísu aðeins lengri. Júlíus var 46 metrar á lengd og 9,5 metrar á breidd. Við smíði skipsins var lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri og að öll vinna um borð yrði sem léttust. Júlíus var fyrsti togarinn þar sem hægt var að blása ísnum beint í kassa í lestinni. Einnig var í togaranum flottrollsvinda.
Á skipinu var 15 manna áhöfn og skipstjóri var Hermann Skúlason. Júlíus þjónaði ísfirðingum í tæp 7 ár en þá var hann endurnýjaður með stærra skipi.

Næsti skuttogari sem kom til Ísafjarðar var Páll Pálsson en hann kom 21. febrúar 1973. Núverandi Júlíus Geirmundsson er þriðji skuttogarinn með sama nafni en fyrstur til að fá nafnið Júlíus Geirmundsson var 250 tonna bátur smíðaður í Austur-Þýskalandi og kom til Ísafjarðar 2. mars 1967.
Júlíus Geirmundsson sem kom fyrir 30 árum heitir nú Hornsund og er skráður í Murmask en eigendur eru norskir.
miðvikudagurinn 30. október 2002

Rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi hefjast

Rækjuvertíð í Ísafjarðardjúpi hófst í gærmorgun. Hafró hefur mælt með 1.000 tonna kvóta í vetur. Það er skerðing um 500 tonn miðað við í fyrra. Töluvert minna mældist af rækju í rannsókninni núna og hefur vísitalan fallið úr 2516 í fyrra niður í 1385 núna. Sjór mældist óvenju heitur núna eða um 8,5 til 9,2 gráður. Veiðin fyrstadaginn gekk misjafnlega hjá þeim bátum sem landa hjá H-G hf. Aldan landaði 1.826 kg, Valurinn 387 kg, þeir festu illa og urðu að fara í land, Dagný var með 585 kg, Fengsæll með 3.552 kg, Örn með 4.226 kg, Trausti með 1.088, en það er bátur sem Guðjón Kjartansson verðu með í vetur, Snæbjörgin með 5.820 kg og Gunnvör 4.005 kg. Rækjan taldist frá 242 til 330 stk/kg.
laugardagurinn 26. október 2002

Markviss uppbygging starfsmanna

Í maí sl. var ákveðið að skoða starfsfræðslu- og endurmenntunarmál H-G hf. Leitað var samstarfs við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verkefninu “Markviss uppbygging starfsmanna H-G hf.” hrundið af stað.

Markmiðin voru að greina þörf fyrir fræðslu í bolfiskvinnslu H-G hf., gera fræðsluáætlun og hrinda henni í framkvæmd. Stýrihópur skipaður starfsmönnum og stjórnendum H-G, ásamt ráðgjöfum frá FMV vann greiningarvinnu og hefur skilað af sér fræðsluáætlun til næstu 2ja ára. Fræðsluáætlunin var kynnt á starfsmannafundi í Hnífsdal sl. föstudag og var af því tilefni boðið upp á matarveislu þar sem á borðum voru afurðir úr þorski, hokinhala, leirgeddu ásamt fleiri hjúpuðum sjávarréttum úr fiskréttaverksmiðju SH í Bandaríkjunum. Stór hluti af bæði landfrystum og sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum H-G hf. er seldur á Bandaríkjamarkað.
miðvikudagurinn 23. október 2002

Aflinn fiskveiðiárið 2001/2002

Rækjuaflinn hefur aukist um 30 % á sóknareiningu frá síðasta kvótaári.
Skip
Aflinn í tonnum
Aflaverðmæti í þús.
Andey
1.308
131.483
Framnes
1.050
105.705
Stefnir
1.225
126.673
Páll
3.852
436.866
Júlíus
5.027
1.121.558
Bára
142
11.096
Örn
174
13.504
Alls.
12.778
1.946.885
mánudagurinn 3. júní 2002

Sjómannadagurinn

Júlíus Geirmundsson kom til hafnar á Ísafirði á laugardagsmorguninn eftir vel heppnaða veiðiferð sem gaf um 140 milljóna króna aflaverðmæti sem gerði um 4,2 milljónir á úthaldsdag.Veiðiferðin hófst 3 maí og var farið á Hampiðjutorg. Að morgni 17 maí var landað i Reykjavík um 310 tonnum af grálúðu, haldið var aftur til veiða um kvöldið. Júlíus fór svo með Ísfirðinga unga sem aldna í siglingu um Ísafjarðardjúp á laugardagsmorgninum. Til sýnis um borð voru furðufiskar úr hafdjúpunum sem áhöfnin hafði safnað. Þar var einnig snæugla sem skipvejar höfðu tekið upp á arma sína og hjúkrað til heilsu.

Páll Pálsson fór einnig í siglingu á laugardagsmorguninn. Hann hafði komið til hafnar kvöldið áður með um 100 tonna afla uppistaðan þorskur af vestfjarðarmiðum. Framnes var með um 18 tonn og Stefnir um 11 tonn eftir stuttan túr. Andey landaði 10 tonnum á laugardagsmorgninum og fór svo í siglingu með Súðvíkinga.