Tíðindi

mánudagurinn 12. janúar 2004

Áhöfn og útgerð Júlíusar Geirmundssonar fær gæðaverðlaun ársins 2003 frá Icelandic UK í Bretlandi.

Á markaðsfundi 29. desember síðastliðnum veitti Icelandic UK áhöfn Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 sérstakan viðurkenningarskjöld fyrir framúrskarandi vöruvöndun við framleiðsluna árið 2003. Áhöfn Júlíusar var sú eina sem fékk viðurkenningu þetta árið frá Icelandic UK en valið var byggt á gæðaskoðunum SH-þjónustu á afurðum skipsins auk þess var einnig tekið tillit til umsagnar kaupenda á markaðnum og hlutfall framleiðslu fyrir Bretland. Icelandic UK er sölu- og markaðsfyrirtæki SH í Bretlandi sem sér meðal annars um sölu sjófrystra afurða þar í landi. Bretland er einn mikilvægasti markaður fyrir sjófrystar þorsk- og ýsuafurðir frá Íslandi og því mikil hvatning fyrir áhöfn og útgerð Júlíusar sem byggir mikið á þeim tegundum.
föstudagurinn 30. maí 2003

Starfslok eftir 58 ára starf hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru

Starfsfólk bolfiskvinnslu H-G í Hnífsdal gerði sér dagamun í morgun.

 

Tilefnið var að afhenda Pétri Þorvaldssyni viðurkenningu fyrir störf hans í þágu fyrirtækisins til sjós og lands, en Pétur hefur starfað hjá fyrirtækinu og tengdum útgerðum í 58 ár, og var dagurinn í dag síðasti vinnudagurinn hans.

 

Pétur hóf sinn sjómannsferil 1945 þá 15 ára gamall hjá Jóakim Hjartarsyni á mb. Jóakim Pálssyni,og var síðan með Jóakim á mb. Smára. Eftir 10 ára veru hjá Jóakim Hjartarsyni ræður Pétur sig í skipsrúm til Jóakims Pálssonar og er bátsmaður hjá Jóakim í 14 ár meðal annars á Guðrúnu Guðleifsdóttur.

Árið 1968 kemur Pétur í land og fer að starfa í bolfiskvinnslu Hraðfrystihússins í Hnífsdal við almenna fiskvinnslu, auk starfa sinna við fiskvinnslu hefur Pétur komið við sögu við nær allar breytingar og húsbyggingar hjá fyrirtækinu á sínum starfsferli.

 

Í hófi sem haldið var Pétri til heiðurs í morgun afhenti Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri H-G Pétri blómvönd og gullúr að gjöf sem nokkurn þakklætisvott fyrir störf hans í þágu fyrirtækisins, en þau störf hefur hann unnið af mikilli trúmennsku og gætt þess að hlutur fyrirtækisins yrði ekki fyrir borð borinn. Í lok ávarps síns sagði Einar Valur ma. "Ég vil fyrir hönd fyrirtækisins og samstarfsfólks þíns á þessum tímamótum þakka þér fyrir þín störf í þágu fyrirtækisins til sjós og lands og vona að þú fáir að njóta lífsins enn frekar eftir þín starfslok hér.

þriðjudagurinn 25. mars 2003

Aðalfundur 2003

Aðalfundur Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf var haldinn á Hótel Ísafirði föstudaginn 21. mars. Mæting var góð þó ekki hafi viðrað til flugs. Samþykkt var á fundinum að greiða 30% arð samtals um 200 milljónir og verður hann greiddur hluthöfum þann 11. apríl næstkomandi. Samþykkt var að veita stjórn heimild til kaupa á allt að 10% að nafnverði hlutafjár félagsins. Þóknun til aðalmanna og varamanns í stjórn félagsins var samþykkt kr. 450.000 og kr. 900.000 til stjórnarformanns.

Fyrri stjórn var endur kjörin að öðru leiti en því að í stað Brynjólfs Bjarnasonar sem varamaður í stjórn kemur Magnús Jónsson. Í stjórn eru því Elías Ingimarsson, Gunnar Jóakimsson, Kristján G. Jóhannsson varaformaður, Salvar Baldursson og Þorsteinn Vilhelmsson stjórnarformaður.

Í lok fundar veitti Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru verðlaunin “Virðisauka” fyrir frumkvæði í þorskeldis rannsóknum. Að mati nefndarinnar hefur Hraðfrystihúsið-Gunnvör sýnt mikið frumkvæði með þorskeldisrannsóknum sínum og verið sterkur bakhjarl í atvinnulífi bæjarfélagsins um árabil.
mánudagurinn 24. febrúar 2003

30 ár frá komu Páls Pálssonar til Hnífsdals

Þann 21. feb 1973 kom Páll Pálsson til Hnífdals eftir um 54 daga siglingu frá Muroran í Japan þar sem hann var smíðaður. Smíðaverðið uppfært til verðlags í dag er um 514 milljónir. Árið 1987 fór Páll til Póllands þar sem skipið var lengt og sett ný vél í skipið. Á þessum þrjátíu árum sem liðin eru hefur Páll fiskað um 120 þúsund tonn miðað við slægt sem gerir um 4.000 tonn á ári. Miðað við óslægt er þetta um 140 þúsund tonn.

Heildaraflaverðmæti Páls á tímabilinu miðað við meðalverð árið 2002 er um 14 milljarðar eða um 460 milljónir á ári.

Skipstjórar hafa verið Guðjón Arnar Kristjánsson (1972 til 1992 ) Kristján Jóakimsson ( 1992 til 1995 ) og Páll Halldórsson ( 1995- ). Í tilefni afmælisins hittust fyrrverandi og núverandi skipsverjar á laugardagskvöldið og áttu góða kvöldstund saman.

fimmtudagurinn 9. janúar 2003

Ný spil í Stefni ÍS-28

Stefnir kom til Ísafjarðar á miðvikudaginn eftir um mánaðar dvöl í Hafnarfirði. Framtak og Naust Marine sáu um að skipta gömlu vindunni út fyrir nýjar frá Ibercisa á Spáni. Settar vöru í skipið tvær splittvindur auk tveggja gilsavinda og stjórnkerfis. (Auto-trolls) Gamla vindan var orðin um 24 ára gömul og þess má geta að upphafleg notaði Stefnir hlera sem vógu um 1000 kg en notar núna hlera sem vega um 4000 kg auk þessa hafa veiðarfærin stækkað til muna. Stefnir heldur til veiða í kvöld.